Áshildarmýri

Áshildarmýri er gróðurfláki efst í Merkurhrauni, vestan Skeiðavegar, mýrlendur að hluta. Í jaðri hans að norðan er  hraunhóll sem heitir Áshildarhóll. Örnefnin eru dregin af nafni Áshildar á Ólafsvöllum, konu Ólafs tvennumbrúna, landnámsmanns á Skeiðum.

Flóamannasaga nær yfir tímabilið frá 870-1020. Þar segir frá Þorgrími örrabeinn sem bjó í Traðarholti skammt frá Stokkseyri. Hann var frægur kappi og fyrrum víkingur. Þorgrímur vildi taka saman við Áshildi eftir fráfall Ólafs en Helgi sonur hjónanna vildi það ekki.

Eitt sinn kvaddi Áshildur Þorgrím í Áshildarmýri, að því talið er, en Helgi sat fyrir honum og felldi vonbiðil móður sinnar. Hræringur sonur Þorgríms hefndi föður síns skömmu síðar og drap Helga.

Á hraunhólnum varð til þing- eða fundarstaður. Árið 1496 riðu foringjar Árnesinga þangað og komu sér saman um samþykkt kennda við Áshildarmýri. Í skjalinu er þess krafist að forn réttindi frá 1262 séu virt, lagaleysi, ofsóknum, ránum og óspektum erlendra valdsmanna mótmælt og krafist að helstu landsstjórnendur séu íslenskir. Þessi mótmæli gegn erlendu valdi voru talin mjög mikilvæg og vitnað til samþykktarinnar í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar löngu seinna.

Árnesingafélagið hélt hátíðarsamkomu að Áshildarmýri árið 1946 til að minnast 450 ára ártíðar samþykktarinnar og var þá afhjúpaður minnisvarði, hraungrýti með áletruðum skildi.