Laxárgljúfur

Í hálendisbrúnina á afrétti Skeiða- og Hrunamanna og Gnúpverja hefur Stóra-Laxá, sem á upptök í Laxárdrögum sunnan Kerlingarfjalla, skorist djúpt í berggrunninn. Hann er 2-3 milljón ára gamall og víðast hvar úr hraunlögum og móbergi, þ.e. þjappaðri og samansteyptri gjósku eftir eldsumbrot á ísöld. Stóra-Laxá hefur lengi verið gjöful laxveiðiá og eru þar mörk Hrunamannahrepps og Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

Gljúfrin mynduðust aðallega við rof og gröft Stóru-Laxár undanfarin 10.000 ár, eða svo. Þau eru um 100-200 metra djúp og um 10 kílómetra löng, frá innsta hlutanum, að Hrunakrók, efst í Laxárdal. Víða eru gljúfraveggirnir þverhníptir til beggja handa og rennur tær áin þar þröngt, en sums staðar eru gljúfrin breið og stöllótt. Í þeim má finna margbreytilegar bergmyndanir og er náttúran einna tilkomumest í Fögrutorfu, ofarlega í gljúfrunum. Þau eru víða torfær eða ófær göngumönnum.

Aðkoma að Laxárgljúfrum er eftir akvegum til bæjanna Kaldbaks (norðanvestan ár) og Laxárdals (suðaustan ár) og þaðan að Hrunakrók (jeppavegur). Langar gönguleiðir og óljósar liggja fyrir þeim sem ætla að lesa í landið. Gljúfrin eru með þeim mikilfenglegustu á Íslandi og ákaflega áhugaverð náttúrusmíð.