Dýralíf

Í Þjórsárverum og sunnan í Arnarfelli mikla hefur fundist þriðjungur allra íslenskra varpfugla, m.a. álft, gæsir, himbrimi, kjói, hávella, heiðlóa, óðinshani og rjúpa. Milli 25 og 30 tegundir fugla verpa ofan byggðarinnar.

Heiðargæsavarpið í Þjórsárverum er það stærsta í heimi, með tugþúsundum varpfugla. Áður fyrr voru ófleygar gæsir reknar þar í réttir og þeim slátrað.

Mófuglar, t.d. lóa og þúfutittlingur, vaðfuglar og sundfuglar sjást á afréttinum, í Þjórsárdal og í byggðinni en í skógi ber mikið t.d. á skógarþröstum.

Nokkrir tugir refagrenja eru á afréttinum og fáein í Þjórsárverum. Refur er enn talin óþarfa skaðvaldur og því veiddur. Lifibrauð refa er einkum fuglar, egg og hagamýs. Minkar eru á ferli á landsvæðinu, bæði í byggð og óbyggðum.

Neðarlega í Þjórsá er ágæt laxveiði en fiskurinn veiðist aðallega í net. Stóra-Laxá hefur löngum verið kunn fyrir laxagengd. Lax er líka í Kálfá, Fossá og nokkrum smáám. Urriði finnst í öllum þessum ám og víðar, og bleikja er þekkt, t.d. í Þjórsá og Fossá