Eldgos og skjálftar

Innan Skeiða- og Gnúpverjahrepps eru engar virkar eldstöðvar en við norðurjarðarinn mikið eldfjall hulið jökli.  Þetta er Hofsjökull með 700 m djúpri öskju. Gossaga eldfjallsins, sem lagt er til að nefnt verði Ketill, er að mestu ókunn. Þó sjást fáein hraun yngri en 10.000 ára við jökuljaðrana.

Eldstöðvar austan svæðsins eru mikilvirkar. Inni á Tungnaáröræfum hefur alloft gosið á sprungum Bárðarbungueldstöðvakefisins. Fyrir rúmum 8.000 árum kom eitt þessara Tungnaárhrauna úr gossprungu sem nú er horfin undir yngri hraun.
Þetta Þjórsárhraun rann umhverfis Búrfell og niður Þjórsárdal og um svæði sem núna er milli Hvítár og Þjórsár, allt til sjávar. Flatarmálið er um 1.000 ferkílómetrar en rúmmálið 21 rúmkílómetri.

Á sögulegum tíma hafa orðið mikil og mörg eldgos austan Þjórsár. Í Vatnaöldum gaus nálægt 870 og lagðist þá tvílitt gjóskulag víða yfir land, svokallað landnámslag. Nálægt 1480 gaus í Veiðivötnum og varð þess vart víða um land.

Mikilvirkasti nágranni svæðisins er framleiðnasta og frægasta eldfjall Íslands, sjálf Hekla. Þar varð mikið eldgos 1104, með örlagaríkum afleiðingum í byggð næst fjallinu. Síðan hafa yfir 20 eldgos orðið í Heklu, síðast 1947, 1970, 1980-1981, 1991 og 2000. Fjallið er nærri 1.500 metra hátt og með kvikuhólfi á nokkura kílómetra dýpi. Gosefnin eru ekki basalt heldur úr kísilríkari kviku. Gossprungur utan fjallsins gjósa basalti, síðast 1913.

Jarðskjálftabelti með norðlægum sprungum, svonefnt Suðurlandsbrotabelti nær þvert í gegnum neðanverðan hreppinn. Spennann í beltinu eykst vegna flekahreyfinga í vestur við norðurjaðarinn en í austur við suðurjaðarinn (skýringarmynd). Við hámarkspennu bresta jarðlög á norðlægu sprungunum innan beltisins. Þar verður skerhreyfing og verða brestirnir oftast í hrinum með margra áratuga bili með tilheyrandi jarðskjálftum, á stærðarbilinu 6 til 7 á Richterkvarða

Vitað er um meira en 30 stórar jarðskjáftahrinur í sögunni. Sumir skjáftanna hafa átt upptök utan hreppsins en aðrir innan hans eins og árin 1896 og 2000 (sýnt skjálftakort af Árnessprungunni frá 2000). Oft hefur orðið verulegt tjón í jarðskjálftunum og jafnvel manntjón fyrrum.