Gróðurfar

Blómplöntur og víðir vex óvíða í meiri hæð en í suðurhlíðum Arnarfells mikla við Hofsjökul. Neðst í Arnarfellsbrekkunni er loð- og gulvíðir, blágresi, burnirót, hvönn, grastegundir og bláberjalyng. Þar hafa verið taldar 97 tegundir háplantna (af tæplega 500 í flóru Íslands).

Fyrir framan Múlajökul liggur margföld bogadregin röð jöklugarða. Næst jöklinum eru þeir naktir eða lítt grónir en þeir elstu og fremstu (Fremri-Arnarfellsmúlar) eru algrónir. Þar má sjá t.d. hvönn og burnirót.

Þjórsárver eru stærsta freðmýri á Íslandi. Telja má það víðáttumesta gróðurlendi miðhálendisins sem kemst næst því að bera upprunalegan gróður. Þar eru áberandi burnirót, ætihvönn og blágresi, auk mosa, stara og fjölbreytts votlendisgróðurs.

Efri hluti afréttarins, ofan 600 m, er gróðurlaus eða gróðurlítill en víða þó bæði lággróður, einkum í nánd við vötn, ár og læki og á skjólsælum stöðum. Neðar er víða samfellt gróðurlendi með mólendi, mýrum og mosaþembum. Um þriðjungur afréttarins milli Stóru-Laxár og Þjórsár er gróinn.

Gömul örnefni benda til þess að birkiskógar eða kjarr hafi víða verið þar sem nú er auðn eða allt annar gróður. Birkiskógar hafa varðveist neðarlega í Þjórsárdal og framan í Búrfell. Þeir stækka núna. Auk þess hefur barrtrjám verið plantað í landi Ásólfstaða og Skriðufells og þar er hinn vinsæli Þjórsárdalsskógur.

Í byggðinni einkennist gróðurfarið af mólendisgróðri, túngróðri og gróðri á framræstum svæðum sem ekki hafa verið tekin undir tún.