Jarðlög

Mikil eldvirkni var á núverandi hálendi milli Hvítár og Þjórsár. Hún var áberandi fyrir einni til þremur milljón árum.

Hraun runnu á hlýskeiðum ísaldar og einnig skömmu fyrir hana. Þau sjást í fjöllum inn af byggðinni, víða með fallegum stuðlum.

Á jökulskeiðum lá þykkur ís yfir landinu. Eldgos þess tíma hlóðu upp jarðmyndunum, aðallega úr glerkenndri gjósku – móbergi (ljósmynd) - og skyldum myndunum, ásamt setbergi. Jarðmyndanirnar í heild eru frá því fyrir 0,8 til 3 milljón árum og kallast einu nafni Hreppamyndunin. Þær eru töluvert mikið sprungnar og haggaðar.

Í hinum fornu berglögum á Suðurlandi risu tvö stór eldfjöll eða megineldstöðvar öðru heiti.

Jöklar ísaldar mótuðu mikið landið og sjást leifar eldfjallanna við Stóru- Laxá og innst í Þjórsárdal, m.a. súrt berg eða líparít, hitasoðið berg og kvikufylltar sprungur.

Stutt er inn á virka gosbelti landins í austri. Þar eru margar gossprungur og megineldstöðvar á borð við Heklu og Torfajökul.

Síðla á einu jökulskeiði ísaldar hlóðst upp aflangur móbergsstapi í eldgosi í jöklinum, ofan á rofin jarðalagstafla. Þetta er Búrfell (699 m).

Eftir að jöklar síðasta jökulskeiðs hurfu af svæðinu austan við Þjórsá í nágrenni Tungnaár, opnuðust gossprungur hvað eftir annað og mikil hraun runnu, m.a. alla leið til sjávar í suðri .

Jökull síðasta jökulskeiðs hvarf fyrir um 10.000 árum og skildi eftir jökulruðning, bæði grýtta og leiruga botnurðina og jökulgarða.

Fyrst eftir síðasta jökulskeið náði sjór í um 100 m hæð á Suðurlandsundirlendinu sem þá var grunnur flói.

Eftir ísöld  reis landið og smám saman huldist sjávar- og ársetið nýjum jarðvegi sem er bæði áfok, gjóska og lífræna leifar.