Landslag

Hofsjökull er allt að 1.800 metra hár. Hann hylur stórt eldfjall með öskju og frá jökulhvelinu mjakast skriðjöklar, þeirra á meðal Múlajökull. Frá jöklinum falla ár sem eru að mestu bráðinn jökulís. Ein jökulánna er Þjórsá.

Sunnan Hofsjökuls liggur stórt, flatt og votlent svæði með grónum ásum. Þar er jarðklaki sem ekki hverfur á sumrin. Í Þjórsárverum er gróskumikill gróður, tjarnir og stórar þúfur og þar er mikið heiðargæsavarp.

Fyrir sunnan Þjórsáverin eru sandar og samfelld hálendissvæði með hæðum, daladrögum, lágum fjöllum (um það bil 400-850 m), dragám og vötnum. Þetta er jökulsorfið hálendi eftir löngu horfna eldvirkni (Hreppamyndunin).

Þjórsá fellur austan við landið en í vestri sker Stóra-Laxá (blanda lindár og dragár) sig ofan í glæsilegt gljúfur uns hún nær fram undir láglendið.

Jökulsorfinn Þjórsárdalur liggur inn af austurmörkum byggðarinnar. Umhverfis hann eru allhá fjöll en dalbotninn þakinn ungu hrauni. Dalurinn er þekktur fyrir náttúrufegurð.

Jaðrar hálendisns eru með lágum hamrafellum og meðfram þeim stendur hluti byggðarinnar, víða í 120-230 m hæð en í skjóli fyrir köldum norðanvindi.

Á undirlendinu skiptast á holt, móar og mýrlendi milli stóránna en mikið ræktarland er þar líka. Vörðufell (391 m), með stöðuvatni á kollinum, og Hestfjall (317 m) eru eins og reisulegar eyjar í grænu hafi.