Um Þjórsárstofu

Veitingastofa

Í veitingastofu Árness er hægt að fá veitingar yfir sumartímann. Áhersla er á að nýta ferskt hráefni  af svæðinu.  Í huggulegum veitingasal eða á sólríkri veröndinni er pláss fyrir allt að 70 manns. Á boðstólnum er morgunverður, léttur hádegis og kvöldverður, kaffi og heimabakað bakkelsi og opinn bar með léttvín og öl.

  • Allar nánari upplýsingar má finna hér:

 

Gestastofa

Þjórsárstofa - gestastofa í Árnesi - er samstarfsverkefni sveitarfélagsins Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Landsvirkjunar.

Markmið Þjórsárstofu er að miðla fróðleik og upplýsingum um landið og náttúruna, fólkið og söguna og þá þjónustu sem er að finna á Þjórsársvæðinu, með Þjórsá sjálfa sem meginþema.

Þjórsárdalur er eitt fegursta landsvæði sunnan heiða með fjölbreytt náttúrufar og mikla sögu sem nú hefur verið gerð aðgengilegri með sýningu, upplýsingum og margmiðlun í Þjórsárstofu.

Árnes er reisulegt félagsheimili, byggt um 1970, sem nú hefur verið endurgert að hluta með það fyrir augum að geta betur tekið á móti gestum, bæði þeim sem búa á Þjórsársvæðinu og aðkomnum, og þjónað því samfélagi sem það er hluti af. Áhersla er lögð á að styrkja það starf sem er í félagsheimilinu árið um kring.

Gunnar Marteinsson, fyrrverandi oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Helgi Bjarnason hjá
Landsvirkjun hafa annast verkefnisstjórn. Fyrri áfangi Þjórsárstofu var  tekinn
í notkun vorið 2011 en síðari áfangi 30. maí 2012.

Endurgerð á húsi önnuðust Basalt arkitektar, lýsingu og rafkerfi hannaði Verkís
hf., verktaki var Ólafur Leifsson og Sigurður Kárason vann járnsmíði.

Björn G. Björnsson sá um sýningarhönnun og Ari Trausti Guðmundsson skrifaði
texta. Margmiðlun var unnin af Gagarín og Módelsmíði sá um gerð loftmyndar
með örnefnamerkingum. Hljóðx ehf sá um búnað í sal  og uppsetninu hans.  Byggðasafn Árnessýslu lánar sýningargripi og Merking
sá um prentun mynda.

Ljósmyndir á sýningunni tók Jóhannes Long og um kvikmyndun sáu Steingrímur Þórðarson og Jón Þór Víglundsson.

s. 486 6115